Greta Salóme keypti fyrsta Álfinn

Greta Salóme keypti fyrsta Álfinn þetta árið en Álfasala SÁÁ árið 2016 er að hefjast og stendur næstu daga.

„Ég hvet alla til þess að kaupa SÁÁ Álfinn. Hann er ógeðslega sætur með bleikan hanakamb,“ voru skilaboð Gretu Salóme við þetta tækifæri en hún stígur á svið í Stokkhólmi sem fulltrúi Íslands í Eurovision að kvöldi þriðjudagsins 10. maí, sem er fyrsti dagur Álfasölunnar. Sjá myndbandið hér að ofan. Hún tók sér tíma til að þiggja boð SÁÁ um að kaupa fyrsta Álfinn 2016 en að öðru leyti eyddi hún deginum í dag við æfingar í Globen-höllinni í Stokkhólmi.

SÁÁ þakkar Gretu Salóme kærlega fyrir stuðninginn og sendir henni og hennar fólki bestu stuðnings- og baráttukveðjur til Stokkkhólms.

Álfasalan er nú haldin í 27. skipti. Hún er stærsta fjáröflunarverkefni SÁÁ ár hvert. Allur ágóði af sölunni rennur til að greiða fyrir þjónustu SÁÁ við ungt fólk, bæði afeitrun og meðferð, sálfræðiþjónustu barna eða aðra þjónustu við fjölskyldur áfengis- og vímuefnasjúklinga.

Líkt og undanfarin ár er slagorð Álfasölunnar í ár: ‚‚Álfurinn fyrir unga fólkið‘‘. Þannig er undirstrikuð áhersla á meðferðarúrræði samtakanna fyrir ungt fólk og einnig fyrir börn og aðra aðstandendur þeirra sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Frá árinu 2000 hefur SÁÁ rekið unglingadeild á sjúkrahúsinu Vogi en frá því að sjúkrahúsið var byggt hafa yfir 8000 einstaklingar yngri en 25 ára lagst þar inn. SÁÁ veitir einnig sálfræðiþjónustu fyrir börn alkóhólista. Um 1.100 börn hafa nýtt þá þjónustu sem er kostuð með tekjum af Álfinum og öðrum styrkjum. Það sama á við um viðtöl, ráðgjöf og námskeið sem samtökin veita öðrum aðstandendum.

Álfasala SÁÁ er eitt umfangsmesta fjáröflunarverkefni á vegum almannasamtaka hér á landi á hverju ári. Frá 1990 hefur Álfurinn skilað um 600 milljónum króna sem hafa að öllu leyti runnið inn í heilbrigðisþjónustu SÁÁ við áfengis- og vímuefnasjúklinga. Mörg hundruð manns um land allt vinna við Álfasöluna næstu daga. Þar á meðal eru fjölmargir hópar á vegum íþróttafélaga, skóla og ýmissa samtaka, sem nýta sölulaunin til að greiða fyrir ferðalög eða önnur verkefni á eigin vegum og í eigin heimabyggð.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir: „Þjóðin hefur stutt við bakið á SÁÁ og tryggt að samtökin geti veiti vímuefna- og áfengissjúklingum og fjölskyldum þeirra eins góða þjónustu og kostur er. Ef ekki væri vegna stuðnings almennings þyrfti að draga umtalsvert úr öllu starfi SÁÁ. Þjónusta SÁÁ við börn og aðra aðstandendur áfengis- og vímuefnasjúklinga er til dæmis öll kostuð tekjum af sölu álfsins og öðrum styrkjum. Við erum afskapleg þakklát og auðmjúk vegna þess stuðnings sem SÁÁ hefur notið hjá þjóðinni. Styðjum SÁÁ – Kaupum álfinn!”