Hringbraut – Þórarinn Tyrfingsson í þættinum Þjóðbraut

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ og lækningaforstjóri á Vogi, var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Þjóðbraut á sjónvarpsstöðinni Hringbraut að kvöldi fyrsta dags Álfasölunnar, 10. maí. Þeir ræddu vítt og breitt um vímuefnamál og heilbrigðisþjónustu SÁÁ.

Fíknlækningum fleygir fram

Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri Sjúkrahússins Vogs, segir að þótt það sé flóknara en fyrr að veita alkóhólistum og vímuefnasjúklingum meðferð sé þekkingin nú mun meiri en áður. Ef menn hafi vald á þeirri þekkingu sé starfið auðveldara og meðferðin betri. Gagnger umbylting hafi orðið á vísindaviðmiðum í fíknlækningum. Þekking á heilasjúkdómi áfengis- og vímuefnafíknar sé komin langt á undan þekkingu á almennum geðsjúkdómum. Nú séu hættulegustu vímuefnin lyf sem eru framleidd af lyfjafyrirtækjum; t.d. rítalín og morfín og morfínskyld lyf og mesta baráttan í meðferð og fíknlækkningum tengist slíkum efnum. Það sé ekki gagnlegt að skipta vímuefnum í lögleg efni og ólögleg. Betra sé að líta til efnafræðinnar.  „Ólöglegt efni eins og heróín er alveg það sama og morfín sem er aftur löglegt lyf,“ sagði hann. „Morfín getur orðið gríðarlega hættulegt. Til dæmis í Bandaríkjunum eru morfínskyld lyf að drepa fleiri ungmenni heldur en bílslys.“

Þetta að ofan er stuttur útdráttur úr viðtali sem Sigurjón M. Egilsson á sjónvarpsstöðinni Hringbraut átti við Þórarin í þættinum Þjóðbraut í gærkvöldi. Hægt er að horfa á viðtalið í heild hér á ofan en nánari endursögn í texta er einnig hér að neðan.

Flóknara en áður en auðveldara vegna betri þekkingar

Þórarinn segir að það sé vissulega flóknara að veita fólki meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn nú en áður fyrr þegar flestir voru bara að nota áfengi og kannski kannabisefni. Nú hafi önnur efni og öll lyfjamisnotkunin bæst við:  „Þú þarft að tileinka þér meiri þekkingu. En um leið, ef þú hefur þekkinguna þá er þetta auðveldara. Bæði er árangur meðferðarinnar betri og við höfum miklu meira af sannreyndum aðferðum til dæmis í viðtalstækni og hópmeðferð,“ segir Þórarinn og nefnir að einnig séu nú til betri lyf til afeitrunar á frumstigi meðferðar og svo sé nú hægt að nota lyf til viðhaldsmeðferðar fyrir fólk sem hefur verið háð því að sprauta sig með morfínskyldum lyfjum eins og heróíni, morfíni og öðrum ópíóðum.

Fóru offari í stríðinu

Spurður um viðhorf til lögleiðingar kannabisefna svaraði Þórarinn því að á árum áður hefði verið farið offari í baráttu gegn hinum ólöglegu efnum en í Bandaríkjunum var meðal annars lýst yfir stríði gegn fíkniefnum, en landlæknir Bandaríkjanna lýsti því yfir á dögunum á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum að það stríð væri tapað og hefði því miður breyst í stríð gegn þeim einstaklingum sem eru orðnir sjúkir af vímuefnaneyslu.

„Við vorum stundum, þessir fræðimenn, kannski að taka þátt í því að setja grýlurnar á vegginn, að þetta væri voðalega hættulegt og svona og gerðum kannski sjúklinga að afbrotamönnum, sem er ekki gott,“ sagði Þórarinn.

Stöndum betur en aðrar þjóðir

Hann sagði hins vegar að Íslendingar stæðu miklu betur en flestar aðrar þjóðir að því leyti að hér hefði öllum neytendum vímuefna verið opnaðar dyr inn í heilbrigðiskerfið með tilurð  SÁÁ og sjúkrahússins Vogs. Hér fái allir aðgang að heilbrigðiskerfinu til þess að hætta vímuefnaneyslu en í öðrum löndum eru eingöngu fylgikvillar neyslunnar meðhöndlaðir í almennu heilbrigðiskerfi.

„Og við  höfum farið í meðferð og synir okkar og dætur og það er enginn sem telur að þau séu afbrotamenn þó að þau hafi misst stjórn á vímuefnaneyslu. Samt er oft tengt þessari neyslu ýmis afbrot sem er ekki alveg rétt því það eru ýmsir fordómar á leiðinni. En með þessu höfum við afglæpavætt vímuefnaneyslu. En við megum gera mikið betur.“

Lítil þekking og léleg menntun heilbrigðisstarfsmanna

Þórarinn sagði rætt um að þekking meðal heilbrigðisstarfsmanna varðandi vímuefnameðferð og fíknlækningar væri á lágu stigi „og menntunin er mjög léleg miðað við alla þá vísindalegu þekkingu og framfarir sem hafa orðið í meðferð og til eru.“

„Það, sem kallað er vísindaviðmiðin, þegar þú sérð svona sjúkling,  þau eru allt önnur heldur en áður. Áður horfðu menn á svona sjúkling og spurðu: ‘Sigurjón minn, segðu mér, hvað er virkilega að þér? Við skulum ekki tala um hversu oft þú drekkur og af hverju þú fellur og þessa daglegu viðburði sem eru í þínu lífi; við skulum tala um alvöruvandamálið: Hvað skeði þegar þú varst lítill?’  Í dag þegar þú sérð manninn þá spyrðu: ‘Hvaða truflanir eru hjá þér? Ertu svona hvatvís? Hvað er það sem þú ræður ekki við þegar þú kemur út í lífið? Hvað er það sem veldur föllunum?’ Sem er miklu praktískari og einfaldari leið af því að menn skilja hvað er að, menn skilja að það hefur orðið þessi breyting.“

Umskipti á vísindaviðmiðum

Þórarinn sagði að þessi nýja þekking og þessi nýju viðmið hefðu gjörbreytt starfi í meðferð og fíknlækningum. „Þetta er algjört „paradigm shift“ (umskipti á vísindaviðmiðum) og þarna í þessu fagi hafa orðið gríðarlegar framfarir, vísindalegar, meðan til dæmis í geðlæknisfræðum almennt, hefur þetta ekki gengið eins vel. Líklega er það vegna þess að Bandaríkjamenn lentu í svo miklum vandamálum að þeir eyddu alveg óhemjumiklum peningum í rannsókn á þessu og okkar sjúkdómur, heilasjúkdómur, er meira rannsakaður en aðrir heilasjúkdómar sem við köllum undir venjulegum kringumstæðum geðsjúkdóma.“

Ég lít svo á að geðsjúkdómar séu bilun í hinni líffræðilegu vél, það er eitthvað sem starfar ekki rétt í heilanum. Ástæðan fyrir að heilin starfar ekki rétt, það er hægt að rekja það til líffræðilegra breytinga. Af hverju verða líffræðilegar breytingarnar til? Við viðurkennum það að áföll til dæmis eða mikið álag getur breytt heilanum vegna þess að heilinn er þannig líffæri að hann tekur mið af umhverfinu og þannig geta sjúkdómar skapast án vitneskju manns í lífinu almennt og það er þetta sem skeður þegar menn lifa lífinu sínu, nota áfengi, og svo allt í einu kannski um sextugt þá bara stýra þeir ekki áfengisneyslunni og það er ekkert flókið, ef þú þekkir þetta, það er svo auðvelt að fara þessa leið.“