Byggingaframkvæmdir á Vík

Vídeóið að ofan var tekið af Ólafi Kristjánssyni úr dróna yfir byggingasvæðinu á landi SÁÁ á Vík á Kjalarnesi. Þar rís nú fullkomin meðferðarstöð með stórbættri aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk samtakanna. Myndin var tekin 4. júlí meðan verið var að vinna við jarðvegsskipti og sökkla.

Hér að neðan er svo ljósmynd sem tekin var fyrir nokkrum dögum og farið er að slá upp fyrir veggjum nýrrar starfsmannaálmu en auk hennar verður sérstök karlaálma fjær en endurnýjuð álma fyrir konur með viðbyggingu í húsinu sem fyrir er á landinu. Ráðgert er að nýbyggingarnar verði risnar í janúar og verði fullgerðar í maí. Þá er framundan endurnýjun eldra hússins áður en fullgerð meðferðarstöð verður tekin í notkun á 40 ára afmæli SÁÁ í október árið 2017.